Debetkort

Hvernig virka debetkort

Debetkort eru greiðslukort sem eru tengd beint í veltureikninginn þinn, þannig að í hvert skipti sem að þú notar debetkortið þitt þá fer peningurinn beint út af reikningum þínum. Veltureikningurinn er mjög oft reikningurinn sem að launin þín fara inn á og eingöngu er hægt að tengja debetkort í veltureikning. Veltureikningar bera almennt mjög lága vexti en hjá flestum bönkum er hefðbundinn veltureikningur með 1-2% innlánsvexti.

Gallar debetkorta

Færslugjald er þjónustugjald, oftast 18 -19 kr., sem bankinn tekur fyrir hverja færslu sem að þú setur á kortið. Helstu gallar eru að ef þú lendir í því að kortaupplýsingar þínar eru misnotaðar þá er allur peningurinn sem er inni á veltureikningum þínum undir en einnig er erfiðara að fá endurgreiðslu heldur en ef þú lendir í að kreditkortaupplýsingarnar þínar eru misnotaðar. Lítil sem engin fríðindi eru á debetkortum og peningarnir þínir ávaxtast illa ef að þú geymir þá inni á veltureikningum.

Kostir debetkorta

Helstu kostir debetkorts eru að þú getur ekki notað peninga sem þú átt ekki til ef þú notar debetkortið, þetta á eingöngu við ef þú ert ekki með yfirdráttarheimild á debetkortinu þínu. Ef þú ætlar að taka peninga út af korti í hraðbanka þá er ódýrast að nota debetkort, það kostar ekkert að taka pening út af debetkorti í hraðbanka í eigu þíns viðskiptabanka. Árgjald debetkorta er lágt en árgjald debetkorta hjá viðskiptabönkunum þremur er 790 – 990 kr. þó er mikilvægt að hafa í huga að debetkort bera oft færslugjöld þegar farið er yfir ákveðinn fjölda færsla á ári. 

*Á ekki við ef að yfirdráttarheimild hefur verið sett upp á veltureikninginn